Það hefur langt um liðið frá því leikmenn fengu að heimsækja Kalos-héraðið síðast, en nú er leikjaframleiðandinn Game Freak loksins tilbúinn að hleypa okkur aftur þangað – með Pokémon Z-A. Leikurinn var opinberaður á Pokémon Day 2024 og markar fyrstu stóru tilraun seríunnar inn í nýja kynslóð Nintendo Switch 2, með nýrri grafík, dýpri sögusögn og áherslu á andrúmsloft stórborgarinnar, með háhýsum, neonskiltum, tækni og mannlífi í stað hefðbundins umhverfis eins og skóga, sveita og fjalla.

Leikurinn fer fram í Lumiose City, hjarta Kalos, sem nú hefur verið endurhannað frá grunni. Hér er borgin lifandi vistkerfi. Byggingar rísa, götur breytast og leikmaðurinn hefur raunveruleg áhrif á þróun umhverfisins. Þróun og náttúruvernd eru þemu leiksins; hin eilífa spurning um hvernig Pokémon og menn geta lifað saman í síbreytilegu samfélagi.

Grafíkin fær stórt stökk fram á við með Switch 2 vélinni. Ljós, skuggar og smáatriði í umhverfinu minna frekar á nýjustu Zelda-titla en hefðbundna Pokémon leiki. Hreyfing Pokémonanna er mýkri, bardagar eru flæðandi og heimurinn virðist loksins lifandi á þann hátt sem margir hafa beðið eftir frá fyrsta 3D Pokémon leiknum á Nintendo 3DS.

Aðdáendur hafa auðvitað verið að velta fyrir sér hvort hin goðsagnakennda Zygarde-lífvera verði í aðalhlutverki – og það virðist vera raunin. Nafnið Z-A vísar augljóslega til Zygarde og möguleika á að sjá bæði ný form og tengingu við meginefni leiksins: jafnvægi.

Ef þetta tekst, gæti Z-A orðið leikurinn sem endurskilgreinir hvað Pokémon getur verið í nútímanum – og minnir okkur á hvað gerði þessa seríu svona ástsæla til að byrja með.

Sjáðu myndbandið af leiknum hér:
YouTube: Pokémon Legends Z-A